Sjóminjasafn Austurlands er framsækið safn þar sem tækifæri gefst til að kynnast útgerðarháttum á austurlandi. Vettvangur söfnunar, rannsókna og miðlunar á útgerðar- og iðnsögu á austurlandi. Safnið hefur ríkar samfélagslegar skyldur sem lúta að því að veita aðgang að sögulegum menjum með það að markmiði að auka vitund um gildi þess mikilvægis að halda sögu okkar til haga.

Í safninu eru munir sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð.

Safnið er í gömlu verslunarhúsi (Gömlu-Búð) sem verslunarfélagið Örum & Wulff byggði um 1816. Carl D. Tulinius sem var starfsmaður hjá félaginu, keypti verslunina um 1860 og rak hana til dauðadags árið 1905 og þá tóku við afkomendur hans og kölluðu fyrirtækið C. D. Tulinius efterfölgere og starfaði það til ársins 1912. Gamla-Búð hefur þjónað margvíslegum hlutverkum í bæjarfélaginu, eftir að verslunin var flutt, fyrst sem pakkhús og síðar fiskgeymsla, veiðarfærageymsla o.fl.

Byrjað var á endurbyggingu hússins árið 1968 og var það þá flutt ofar í lóðina, eða þar sem það stendur í dag, til þess að rýma fyrir vegaframkvæmdum og árið 1983 var verkinu lokið. Þá var búið að ákveða stofnun Sjóminjasafns á Eskifirði og var því komið fyrir í húsinu. Safnið var opnað almenningi þann 4. júní 1983. Þegar komið er að Gömlu-Búð finnst manni maður strax vera kominn á annað tímabil í sögunni. Húsið er svartmálað og á þakinu er kvistur með glugga. Fyrir utan safnið eru nokkrir hlutir sem vert er að staldra við. Þarna eru t.d. eld gamalt skútuanker, siglutré úr Gullfaxa frá Neskaupstað, lifrarbræðslupottar, skipaskrúfa o.fl.

Safnið þykir einstaklega skemmtilega framsett, fjölbreytt og fróðlegt heim að sækja. Það er á tveimur hæðum.

Randulffssjóhús sem er einnig í eigu safnsins er eitt af best þekktum kennileitum í útbæ Eskifjarðar en þar er rekinn veitingastaður og má segja að sjóhúsið sé nokkurs konar safn en þar er að sjá margskonar muni sem tilheyra sjósókn ásamt því að í húsinu er ein best varveittasta verbúð á landinu.

Saga Randulffssjóhúss í stuttu máli
Upp úr 1870 hafði síldveiði verið stunduð í Noregi um langan tíma og voru aðferðir við veiðarnar orðnar þróaðar og voru síldveiðar norðmanna stór atvinnuvegur. En um þetta leiti hvarf síldin við Noreg og stóðu menn uppi ráðalausir. Fréttist þá frá farmönnum sem höfðu siglt til Íslands, að þar væru mikla síld að sjá inni á Austfjörðum og einnig á Eyjafirði. Ákváðu þá nokkrir síldveiðimenn að fara til Íslands og kanna veiðiskap þar. Þá kunnu Íslendingar enga leið til þess að veiða síldina, þó að nóg væri til af henni við fjöruborðið og urðu að láta sér nægja að dorga fyrir þorsk. Var þetta fyrir almenna fátækt og þekkingarleysi. Fluttu því nokkrir Norðmenn veiðibúnað sinn hingað, fyrst til Austfjarða og síðan til Eyjafjarðar og veiddu vel. Með þeim fyrstu sem komu til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, voru Peter Randulff, sem settist að á Hrúteyri við Reyðarfjörð og J.E. Lehmkuhl sem byggði upp veiðistöð sína á Eskifirði, á þeim stað þar sem Jóhann Klausen byggði Netaverkstæði árið 1960 Norðmaðurinn Fredrik Klausen sá um síldveiðarnar fyrir Lehmkuhl og flutti til Eskifjarðar með sína fjölskyldu. Nokkrum árum síðar byggði Lehmkuhl aðra veiðistöð skammt innan við stöð Randulffs á Reyðarfjarðar ströndinni. Lehmkuhl og Randulff, unnu mikið saman og þegar Peter Randulff byggði Randulffssjóhúsið á Eskifirði árið 1890 þá mun sonur Fredriks, Þorgeir Klausen hafa tekið við stjórnun á síldveiðunum á nýju stöðinni. Þorgeir Klausen kvæntist dóttur Randulffs og þegar Randulff féll frá árið 1911 mun Þorgeir og bróðir hans Friðrik hafa eignast sjóhúsið, en það hefur alla tíð síðan verið kallað Randulffs-sjóhús. Þeir bræður stunduðu svo síldveiðar í botnnet og lagnet og notuðu til þess lítinn mótorbát, ásamt gömlu nótabátunum sem voru róðrarbátar. Einnig veiddu þeir þorsk sem var saltaður og þurrkaður, eins og gert var áður en frystihúsin komu til sögunnar. Eftir að þeir bræður Þorgeir og Friðrik féllu frá, á árunum 1955-1960 eignuðust börn þeirra húsið og var það í umsjá Thors Klausen sem var sonur Friðriks. Thor var mikill veiðimaður og veiddi hann bæði síld og þorsk og einnig veiddi hann með byssu sinni, sel og hnísu, sem er minnsti hvalur við Ísland og sjófugla á vetrum og notaði hann þá alltaf lítinn róðrarbát. Síðari árin stundaði hann kolaveiðar í net á litlum trillubát og gaf hann safninu báða þessa báta. Sjóminjasafn Austurlands keypti helming sjóhússins og bryggjunnar af dóttur Þorgeirs, árið 1982 og nokkrum árum síðar gaf Thor safninu sinn hluta eignarinnar. Safnið hefur endurbætt húsið og bryggjuna, þannig að það er að mestu leiti eins og það var upphaflega.

Ýmsar greinar og fréttir

Smellið á myndirnar til að fá stærri útgáfu